Í Mánalandi er unnið með námsefnið Lubbi finnur málbein. Námsefnið Lubbi finnur málbein, íslensku málhljóðin sýnd og sungin er eftir þær Eyrúnu Ísfeld Gísladóttur og Þóru Másdóttur.
Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur við að gelta og þá heyrist „voff – voff – voff“. Lubba langar mikið að læra að tala en þá vandast málið því þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Krakkarnir ætla að hjálpa Lubba við að læra íslensku málhljóðin með söng og ýmsum öðrum æfingum.
Það sem hundum finnst best er að naga bein og er Lubbi engin undantekning. Þess vegna líta málhljóðin út eins og bein og nagar Lubbi beinin og lærir með því að tala smátt og smátt. Í bókinni um Lubba er hvert hljóð táknað með litlum og stórum bókstaf. Hverju málhljóði fylgir ákveðið lag og hvert málhljóð á sér ákveðið tákn, í þeim táknum er oft á tíðum stuðst við tákn með tali. Með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfingu er auðvelt að læra það og muna.
Vísurnar fjalla um hljóðin og auðvelt er að læra þær utanbókar. Þær eru sungnar við gömul og þekkt lög.
Unnið er með hljóðin í þrívídd þ.e. sjónskyn, heyrnarskyn, hreyfiskyn og snertiskyn. Með því er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðin og brúa bilið milli stafs og hljóðs sem að lokum kemur börnum á sporið í lestri og ritun.
Einnig eru í bókinni stuttar sögur sem tengjast hverju hljóði. Í sögunni má finna hljóðið fremst í orði, inni í orði eða aftast í orði. Sögurnar hafa að geyma fjölbreyttan orðaforða og hvetja til auðugs málfars. Spurningar í sögulok gefa færi á áhugaverðum samræðum, rökræðum og vangaveltum.
Lubbaefnið gefur færi á ótal skemmtilegum og fjölbreyttum leikjum sem ýta undir hljóðanám, stafahljóðaþekkingu, hljóðavitund og fleiri undirstöðuþætti fyrir lestrarnám.