Karellen

Könnunarleikur/Heuristic play with objects

Elinor Goldschmied er breskur uppeldisfræðingur sem hefur útfært þá aðferð sem könnunarleikurinn er byggður á. Hugtakið „heuristic“ er að uppruna gríska orðið „eurisko“ sem þýðir „til að uppgötva“ eða „öðlast skilning á“. Börn á öðru og þriðja ári hafa mikla þörf fyrir að rannsaka og uppgötva á eigin spýtur, kanna umhverfi sitt, uppgötva eiginleika og eðli hluta á eigin forsendum og hvernig hlutir haga sér þegar þau stjórna þeim. Markmið könnunarleiksins er að nemendur fái að starfa af eigin hvötum, örva öll skynfæri og fái útrás fyrir meðfædda forvitni sína en til þess þarfnast þeir fjölbreyttra hluta til að geta stundað þessar rannsóknir sínar.

Safnað er saman alls konar „verðlausum“ hlutum en ekki tilbúnum leikföngum. Börnin velja sér hluti og nota þá á margan hátt, skoða, gera tilraunir, og leika sér ótrufluð á íhlutunar kennarans en hlutverk hans er að vera áhorfandi að leik barnanna, fylgjast með og skrá niður leikferli þeirra. Í leiknum örva þau athyglisgáfuna og skynfæri sín m.a. með því að hlusta, snerta og skoða.

Tíminn sem er notaður í tiltekt er ekki síður mikilvægur en leikurinn sjálfur því í gegnum tiltekt læra börnin að para saman og flokka en hvorutveggja er undirstaða stærðfræðináms. Í tiltekt fer einnig fram mikil málörvun þar sem börnin læra að tengja orð við hluti og aðgerðir og æfa hugtakaskilning.

Könnunarleikurinn er ákveðinn með aðferð við leik sem byggist á rannsóknarþörf barna. Undirstaða rannsókna þeirra er auðvitað fyrst og fremst þeirra eigin forvitni og skynjun, en umhverfið er líka skipulagt á tiltekinn hátt. Þannig að það styðji við og ýti undir könnunarþörf barnanna. Börn nota flest skynfæri sín í könnunarleik, þau skoða, snerta, hlusta og sleikja. Þau pæla í jafnvægi, rými, afstöðu og fleiru og fleiru. Einn kostur könnunarleiks er að hann er hægt að ástunda heima og að heiman.

Undirbúningur könnunarleiks

Til að undirbúa leikinn safnar starfsfólk saman ýmiskonar skapandi endurnýtanlegum efnivið, s.s. rörum, hólkum, keðjum af ýmsum lengdum og grófleika, krukkulokum, niðursuðudósum, steinum, skeljum og ýmsu fleiru sem vekur áhuga barna. Þegar leikið er með efniviðinn er honum komið fyrir á tilteknum stöðum í hrúgur(1 – 3 tegundir af efnivið saman) og hvert barn velur sér í fyrstu eina hrúgu/tegund til að kanna.

Hlutverk starfsfólks

Hlutverk starfsfólksins er aðallega að nýta tímann til að gera skráningar á nálgun og rannsóknum barnanna auk þess að læra af börnunum. Í könnunarleik gefst oft dýrmætt tækifæri til að setja sig í stellingar rannsakandans en ekki þess sem leiðir. Næmir og athugulir leikskólakennarar fá í gegnum skráningar innsýn í hugarheim barna og einstakt tækifæri til að kynnast þeim. Því hvert og eitt barn nálgast og leikur með efniviðinn á sinn hátt.

Tiltekt

Tiltektin að leik loknum er mikilvægur þáttur aðferðarinnar. Í gegnum tiltekt læra börnin að para saman og flokka. En hvorutveggja er undirstaða stærðfræðináms barna. Reyndar má segja að könnunarleikurinn sem slíkur sé afar mikilvæg undirstaða margra námsþátta.

© 2016 - 2023 Karellen