Haustið 2018 sótti Mánaland um inngöngu að verkefni Landlæknisembættisins Heilsueflandi leikskóli. Heilsueflandi leikskóla er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana hluta af daglegu starfi leikskólans.
Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa af leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi. Mikill samhljómur er með starfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli nýtist því leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.
Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, matarræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.
Gert er ráð fyrir að Heilsueflandi leikskólar setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaráætlun, og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni. Almennt er talið raunhæft að áætla 5 – 7 ár í vinnu við innleiðingu áður en viðhald hefst.
Verkefnið, Heilsueflandi leikskóli, má rekja til verkefnisins European Network of Health Promoting Schools sem hófst árið 1992 og var samstarfsverkefni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Verkefnið miðaði að því að efla vitund og áhuga kennara, barna og ungmenna á heilsueflingu þar sem lögð er rík áhersla á samstarf við foreldra og nærsamfélagið. Mikilvægt var talið að börnum gæfist tækifæri til að vera í heilsueflandi skóla allt frá skólagöngu og því voru skólar á öllum skólastigum með í verkefninu. Hugmyndin að verkefninu er byggð á Ottawa – sáttmála Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu þar sem horft er til stefnuviðmiða um heilsueflandi skóla, skólaumhverfisins, félagslegs umhverfis, heilsuvitundar barna og getu þeirra til breytinga, samfélagstengsla og heilbrigðisþjónustu.