Karellen

Veikindi og fjarvistir

Ef barn kemur ekki í leikskólanna vegna veikinda eða af öðrum ástæðum vinsamlegast látið okkur vita.

Veikist barn með hita, skal það dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust a.m.k. 1 – 2 sólarhringa. Fái barnið smitandi sjúkdóm, verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitssemi gagnvart börnum og starfsmönnum. Í leikskóla er alltaf meiri hætta á smiti og útbreiðslu algengra umgangssjúkdóma.

Útivist er mikilvægur þáttur leikskólastarfsins og börnin fara út á hverjum degi. Foreldrar hafa oft tilhneigingu til að óska eftir inniveru fyrir börn sín í því skyni að verja þau gegn sýkingum og öðrum veikindum. Það er ekkert sem bendir til þess að börn sýkist fremur í útilofti en innandyra, eiginlega er því þveröfugt farið, smithættan er meiri inni.

Það er gert ráð fyrir að börnin taki þátt í öllu starfi leikskólans bæði úti sem inni. Þess vegna tekur leikskólinn ekki á móti veiku barni. Útiveru er ekki sleppt nema í undantekningartilvikum og því er ekki hægt að hafa börnin inni til að fyrirbyggja veikindi.

Þegar barn kemur í leikskólann eftir veikindi þarf það að vera tilbúið til að taka þátt í öllu skólastarfi úti jafnt sem inni. Hægt er að koma til móts við óskir um inniveru eingöngu með því að barn fari síðast út og fyrst inn.

Til að gæta jafnræðis þá fara starfsmenn eftir þessum reglum, vinsamlegast biðjið þá ekki um annað. Starfsmenn leikskólans mega ekki gefa börnum lyf í leikskólanum.

Veikist barnið í leikskólanum höfum við tafarlaust samband við foreldra sem þurfa að sækja barnið strax og við bregðumst við hverju tilfelli eftir bestu vitund. Leikskólinn hefur snertilausan mæli sem notaður er til að mæla börn sé grunur um að þau séu að verða veik. Viðmið leikskólans eru m.a.

  • Sýni snertilaus mælir 38° og yfir
  • Barnið sýnir greinilega merki um vanlíðan og veikindi
  • Uppköst eða mikill niðurgangur með vanlíðan


© 2016 - 2023 Karellen